Fótbolti

Jafntefli í fyrsta leik HM

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Skemmtilegt fagn hjá heimamönnum þegar þeir komust yfir. Það dugði þó ekki til sigurs.
Skemmtilegt fagn hjá heimamönnum þegar þeir komust yfir. Það dugði þó ekki til sigurs. AFP
Heimamenn í Suður-Afríku gerðu 1-1 jafntefli við Mexíkó í opnunarleik HM en leiknum var að ljúka. Heimaþjóðir hafa því enn aldrei tapað fyrsta leik sínum á HM.

Fyrri hálfleikurinn var að mestu leiti eign Mexíkó sem hóf stórsókn strax á upphafsmínútunum. Heimamenn virtust enn vera að átta sig á því að mótið væri byrjað og tæplega 100 þúsund áhorfendur á vellinum létu vel í sér heyra.

Giovani Dos Santos var allt í öllu í leik Mexíkóa, hann skapaði mikið, meðal annars eitt besta færið þegar Guillermo Franco átti skot sem markmaður Suður-Afríku varði með fínu úthlaupi.

Dos Santos átti síðan gott skot undir lok hálfleiksins sem varnarmaður heimamanna fékk í lærið og boltinn fór rétt yfir. Þá átti Franco einnig skalla úr dauðafæri eftir horn en hann hitti ekki rammann.

Í seinni hálfleik kom fyrsta mark HM þegar Siphiwe Tshabalala skoraði frábært mark. Hann fékk sendingu eftir stungusókn og hreinlega þrumaði boltanum upp í samskeytin fjær. Frábært mark og vel viðeigandi að heimamenn skoruðu fyrsta markið á mótinu á heimavelli.

En, Rafael Marquez jafnaði metin skömmu síðar og sló þögn á áhorfendur í Jóhannesarborg í nokkrar sekúndur.

Katlega Mphela fékk tækifæri til að klára leikinn á 90. mínútu fyrir heimamenn þegar hann slapp einn í gegn en hann skaut í stöngina og niðurstaðan 1-1 jafntefli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×