Körfubolti

Ágúst: Við þekkjum þessa stöðu

Elvar Geir Magnússon skrifar
Ágúst Björgvinsson.
Ágúst Björgvinsson.

KR getur orðið Íslandsmeistari í körfubolta kvenna á laugardag. Liðið vann í kvöld Hamar örugglega og er komið í 2-1 forystu í einvíginu.

„Við erum komnar í stöðu sem við þekkjum. Við lentum í nákvæmlega sömu stöðu gegn Keflavík og þurfum bara að klóra okkur út úr þessu. Við náðum að stríða KR í þessum leik og með smá herslumun þá hefðum við getað náð forystu í leiknum og þetta hefði þá getað endað öðruvísi," sagði Ágúst Björgvinsson, þjálfari Hamars.

Mörgum þótti dómgæslan heldur halla á Hamar í seinni hálfleik. „Ég er ekki dómbær á hvort dómgæslan hafi hallað á okkur. Ég vil alltaf fá meira. Það er hlutlausra aðila að dæma um það," sagði Ágúst.

Hamar var í kvöld án Guðbjargar Sverrisdóttur sem var veik og þá á Julia Demirer við meiðsli að stríða. „Auðvitað munar miklu fyrir okkur að vera ekki með þær. Guðbjörg hefur átt fantagóða úrslitakeppni en er veik heima. Julia hefur bæði verið veik og meidd. Vonandi verða þær klárar fyrir næsta leik," sagði Ágúst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×