Innlent

Fleiri Kaupþingsmenn handteknir

Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings á Íslandi, og Steingrímur Kárason, framkvæmdastjóri áhættustýringar bankans, voru handteknir við komuna til landsins í nótt. Þeir voru yfirheyrðir snemma í morgun og í framhaldinu færðir í fangaklefa. Þetta kom fram í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins.

Þeir Ingólfur og Steingrímur voru í æðstu stöðum innan bankans og nánir samverkamenn Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra, og Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns bankans. Ekki liggur fyrir hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir Ingólfi og Steingrími.

Síðastliðinn föstudag voru Hreiðar Már og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, handteknir og síðar úrskurðaðir í gæsluvarðhald.

Sigurður hefur ekki orðið við beiðni sérstaks saksóknara um að koma fyrr til yfirheyslu vegna rannsóknar á málefnum Kaupþings. Sigurður hefur verið boðaður til yfirheyrslu næstkomandi föstudag og setur skilyrði fyrir að flýta för sinni að hann verði ekki handtekinn við komuna til landsins. Hann hefur einnig boðið sérstökum saksóknara að yfirheyra sig í Bretlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×