Innlent

Langur aðdragandi að ákvörðun Breta

Árni M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, rekur tildrög og eftirmál bankahrunsins í nýrri bók.Fréttablaðið/GVA
Árni M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, rekur tildrög og eftirmál bankahrunsins í nýrri bók.Fréttablaðið/GVA

Þótt sú ákvörðun breskra stjórnvalda að beita lögum um eignafrystingu, sem kölluð hafa verið hryðjuverkalög, á Landsbankann haustið 2008 hafi komið fyrirvaralaust átti hún sér langan aðdraganda í Bretlandi.

Þetta fullyrðir Árni M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, í bókinni Árni Matt – Frá bankahruni til byltingar, sem hann skrifaði ásamt Þórhalli Jósepssyni.

Í bókinni segir Árni frá fundi ráðherra með Davíð Oddssyni, þáverandi seðlabankastjóra, 4. október 2008. Þar lýsir Árni því hvernig Davíð las upp úr bréfi frá Mervyn King, seðlabankastjóra Bretlands. Árni lýsir því svo að Davíð hafi túlkað orð Kings þannig að Íslendingar þyrftu ekki að greiða Icesave-skuldir Landsbankans.

„En King var bara seðlabankastjóri og hafði ekkert umboð til að segja þetta, það þarf ráðherra til að ákveða svona nokkuð svo mér fannst strax að hitt væri líklegra, að við yrðum að semja við þá af því þeir gætu beitt afli,“ segir í bók Árna.

„Ég hafði hins vegar, eins og ég sagði, ekki ímyndunarafl til að trúa því hve hrottalega Bretarnir beittu þessu afli sínu með hryðjuverkalögunum,“ segir þar enn fremur.

Árni segir þessar aðgerðir Breta hafa vakið almenna reiði á Íslandi. „Árásin var svo snögg og óvænt að menn spurðu í forundran hvað gæti verið að baki, hvort Bretar væru að tapa sér.“

Í bókinni segir að þó að íslensk stjórnvöld hafi engan fyrirvara fengið hafi aðdragandi að beitingu laganna verið nokkur í Bretlandi. Þeim mun sárara hafi verið að hafa í góðri trú átt samtöl við Alistair Darling, þáverandi fjármálaráðherra Bretlands, um möguleika á lausn Icesave-vandans.

Árni segir að Darling hafi aldrei gefið annað í skyn en að hann hefði áhyggjur af stöðunni og vildi finna lausn.

brjann@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×