Innlent

Neyðarútgangurinn skrúfaður fastur

Eigandinn hefur verið ákærður fyrir brot á lögum um brunavarnir.
Eigandinn hefur verið ákærður fyrir brot á lögum um brunavarnir.
„Svona umbúnaður öryggismála á samkomustað flokkast hreinlega undir glæpsamlegt athæfi,“ segir Þorbjörn Haraldsson, slökkviliðsstjóri á Akureyri, um það hvernig allar flóttaleiðir á skemmtistaðnum Sjallanum voru ófærar þegar húsinu var lokað fyrr á þessu ári.

Lögreglustjórinn á Akureyri hefur nú ákært eiganda Sjallans, mann á sextugsaldri, fyrir brot gegn lögum um brunavarnir. Í ákærunni kemur fram að aðfaranótt sunnudagsins 21. febrúar hafi Sjallinn verið opinn fyrir almennt skemmtanahald með brunavarnir á skemmtistaðnum í miklum ólestri. „…þegar slökkviliðsstjórinn á Akureyri skoðaði eldvarnir hússins að beiðni lögreglu, komu í ljós meðal annars eftirtaldir ágallar á brunavörnum, til dæmis hafði neyðarútgangur á suðausturhorni hússins verið skrúfaður fastur og aðrar flóttaleiðir gesta voru ýmist bilaðar, eða hindraðar með stólum, bjórkútum, snjó og fleiru og slökkt hafði verið á brunavarnarkerfinu,“ segir enn fremur í ákærunni.

„Staðnum var lokað um leið og þetta kom í ljós,“ segir Þorbjörn. „Eigendur fengu ekki að opna staðinn aftur fyrr en því var lokið og öllum kröfum byggingafulltrúa og eldvarnareftirlits hafði verið mætt.“

Eigendur Sjallans virðast lítið hafa lært af reynslunni eftir að staðurinn varð eldi að bráð rétt fyrir jólin 1981. Þorbjörn segir brunavarnir á ábyrgð húseigenda. Menn fái rekstrarleyfi til nokkurra ára í senn, sem þurfi síðan að endurnýja. Húseigendur þurfi engu að síður að tryggja að ástand og öryggismál hússins drabbist ekki niður á þessum tíma.

„Þetta var ágætis áminning fyrir alla því margir veitingahúsaeigendur stukku af stað og bættu úr sínum málum eftir að þetta kom upp,“ útskýrir Þorbjörn og kveður Slökkviliðið á Akureyri hafa bætt sitt verklag og fjölgað óvæntum skoðunum á eldvörnum skemmtistaða um helgar þegar þeir séu í fullum rekstri.- jss



Fleiri fréttir

Sjá meira


×