Innlent

Ísland hefur staðið við framlög til Haítí

Íslensk stjórnvöld hafa veitt 96,1 milljón króna í hjálpar- og uppbyggingarstarf á Haítí frá því að jarðskjálfti reið þar yfir fyrir rúmu hálfu ári. Þau hafa því nú þegar staðið við öll þau framlög sem lofað hafði verið, að sögn Auðuns Atlasonar, deildarstjóra í utanríkisráðuneytinu.

Langstærstur hluti þess var kostnaður við ferð rústabjörgunarsveitar á vegum Landsbjargar. Sjö milljónir króna hafa farið til Matvælaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna og 25 milljónir til frjálsra félagasamtaka á borð við Hjálparstarf kirkjunnar og Rauða krossinn.

Fréttastofan CNN hefur greint frá því að innan við tvö prósent af þeim 5,3 milljörðum Bandaríkjadala, sem ríkisstjórnir heims lofuðu til uppbyggingar á vegum Sameinuðu þjóðanna eftir jarðskjálftann, hafi skilað sér. Aðeins fjögur lönd hafi afhent fé til sérstakrar stofnunar Sameinuðu þjóðanna; Noregur, Brasilía, Eistland og Ástralía. Þessu fé var lofað í verkefnið á ráðstefnu í mars. Ríkisstjórn Íslands tilkynnti um öll sín framlög á vettvangi SÞ og er ekki meðal þeirra ríkja sem frétt CNN á við um að sögn Auðuns.

Löndin sem ekki hafa staðið við sitt hafa tíma fram á mitt næsta ár til þess. Bandaríkin lofuðu til dæmis einum milljarði dollara og Venesúela 1,3 milljörðum, en hvorugt landið hefur nokkuð greitt. Venesúela hefur þó afskrifað hluta af skuldum Haítí. Spánn, Frakkland og Kanada eru einnig meðal landa sem eiga eftir að greiða háar fjárhæðir.

Bill Clinton, fyrrum Bandaríkjaforseti og sérstakur erindreki SÞ fyrir Haítí, ætlar að þrýsta á ríkisstjórnirnar að standa við loforð sitt sem fyrst og veita upplýsingar um hvenær sé von á fé. Hann segist telja að efnahagsástand heimsins beri að hluta til ábyrgð á seinaganginum.

Hjálparstarf hefur þó gengið vel samanborið við aðrar hamfarir, að sögn talsmanns SÞ á Haítí. Fleiri stofnanir starfa á svæðinu, til dæmis Læknar án landamæra og Rauði krossinn, ásamt einkasjóðum sem hafa verið stofnaðir vegna skjálftans. Læknar án landamæra hafa fengið um 112 milljónir dollara í styrki og eytt 65 þeirra nú þegar og Rauði krossinn hefur eytt 148 milljónum af þeim 468 sem hann hefur fengið.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um frekari framlög íslenska ríkisins til hjálparstarfsins en það kemur til greina, að sögn Auðuns. Það yrði þá gert í samvinnu við alþjóðastofnanir og frjáls félagasamtök eins og SÞ og Rauða krossinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×