Fótbolti

Park býst við því að Norður-Kórea komi á óvart á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Park Ji-sung.
Park Ji-sung. Mynd/AFP
Park Ji-sung, miðjumaður Manchester United og suður-kóreska landsliðsins, telur góðar líkur á því að nágrannar hans úr norðri gætu komið einna mest á óvart á HM í Suður-Afríku.

Norður-Kórea er í "dauðariðlinum" með Brasilíu, Portúgal og Fílabeinsströndinni en það er ekki vitað mikið um leikmenn liðsins sem spila allir heima fyrir og eru lítt þekktir utan heimalandsins.

Park segir að þjálfarar mótherja Norður-Kóreu gætu lent í vandræðum með að undirbúa sig fyrir leikina gegn þeim því það er svo lítið vitað um leikmenn liðsins. Park segist líka ætla að reyna að horfa á alla leiki Norður-Kóreu í keppninni.

Norður-Kórea hefur aðeins einu sinni komist í úrslitakeppni HM og það var árið 1966 þegar þeir komust öllum að óvörum alla leið í átta liða úrslit. Norður-Kórea vann þar á meðal 1-0 sigur á Ítölum í riðlakeppninni.

Fyrsti leikur Norður-Kóreu í keppninni er á móti Brasilíu á þriðjudaginn en Park og félagar í Suður-Kóreu mæta Grikkjum í sínum fyrsta leik á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×