Viðskipti erlent

Sænskir forstjórar eru lítt hrifnir af bónuskerfum

Ný könnun sem unnin var á vegum Samtaka forstjóra í Svíþjóð sýnir að fjórir af hverjum fimm þeirra eru lítt hrifnir af bónuskerfum eða árangurstengdum launum. Raunar finna þeir bónuskerfum margt til foráttu þótt þeir sjálfir þiggi laun samkvæmt þeim.

Í umfjöllun um málið á vefsíðunni dn.se kemur fram að tæplega 400 forstjórar hafi tekið þátt í þessari könnun. Um helmingur þeirra telur að bónuskerfi geri það að verkum að starfsmenn hugsi mest um skjótfenginn gróða til að auka bónusa sína og þar með eigin velferð á kostnað fyrirtækisins sem þeir vinna fyrir.

Bónuskerfin séu meingölluð að því leyti að höfuðáhersla starfsmanna sem vinna samkvæmt þeim er að ársfjórðungsuppgjörið sé í sem bestu lagi en lítil eða engin hugsun fari í að horfa til hugsanlegs árangur til eins eða fleiri ára í einu.

Athyglisvert er að þegar að forstjórarnir voru spurðir hvort þeir myndu þiggja starf þar sem aðeins fastar ákveðnar launagreiðslur væru í boði svöruðu sjö af tíu þeirra spurningunni játandi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×