Handbolti

Jóhann Gunnar: Þeir brotnuðu saman allt of snemma

Stefán Árni Pálsson skrifar
Jóhann Gunnar Einarsson.
Jóhann Gunnar Einarsson. Mynd/Stefán

„Þetta var ótrúlegur leikur hjá okkur í kvöld," sagði Jóhann Gunnar Einarsson, leikmaður Fram, eftir sigurinn á Val í kvöld. Framarar rústuðu Valsmönnum 40-23 í Safamýrinni í þriðju umferð N1 deild karla.

„Leikurinn var jafn á öllum tölum til að byrja með en síðan þegar við vorum komnir nokkrum mörkum yfir þá fann maður neistann hverfa hjá Valsmönnum. Þeir hafa byrjað illa og sjálfstraustið kannski ekki mikið en mér fannst þeir brotna saman allt of snemma," sagði Jóhann.

„Við vorum alveg staðráðnir í því að vinna hér í kvöld eftir frekar slæma byrjun hjá okkur. Liðið var alveg brjálað inn í klefa fyrir leikinn og menn hrikalega vel stemmdir. Ég held að það sé ástæðan fyrir svona frábærum leik hjá okkur í kvöld."

„Við getum unnið öll lið þegar við spilum svona vörn og fáum upp þessa markvörslu. Það var gríðarlega mikilvægt að sigra hér í kvöld því við máttum alls ekki missa toppliðin lengra frá okkur," sagði Jóhann.

Framarar léku frábærlega í kvöld og ef þeir halda áfram að spila svona þá verða þeir til alls líklegir í vetur.

„Það er klárt markmið hjá okkur að vera í toppbaráttu og komast inn í úrslitakeppnina," sagði Jóhann Gunnar Einarsson kátur eftir leikinn í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×