Fótbolti

Sölvi ætlar að reyna ná leiknum á Nou Camp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sölvi Geir Ottesen.
Sölvi Geir Ottesen. Mynd/AFP
Sölvi Geir Ottesen verður ekki með íslenska landsliðinu á móti Portúgal í kvöld og hann hefur líka misst úr síðustu leiki með liði sínu FC Kaupmannahöfn eftir að hann varð fyrir því óláni að handleggsbrotna í leik á móti Bröndby 19. september síðastliðinn. Sölvi er samt allur að braggast og það styttist í það að hann snúi aftur á völlinn.

„Ég reikna með því að ná örugglega seinni leiknum á móti Barcelona. Ég gæti jafnvel náð fyrri leiknum á Camp Nou og það er það sem ég stefni á," sagði Sölvi Geir í viðtali við Tipsblaðið. Næstu tveir leikir FC Kaupmannahafnar eru á móti Spánarmeisturum Barcelona og fara þeir fram 20. október og 2.nóvember.

„Ég er búinn að vera með á síðustu æfingum hjá liðnu en þegar við spilum þá hleyp ég einn í staðinn. Þetta gengur allt saman mjög vel hjá mér," sagði Sölvi Geir.

FC Kaupmannahöfn hefur ekki tapað leik á tímabilinu með Sölva Geir Ottesen á vellinum en það væri stórt próf á þá tölfræði ef að Sölvi fengi tækifæri til að reyna að stoppa þá Lionel Messi, David Villa og Pedro Rodriguez í næstu viku.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×