Fótbolti

Platini: Mourinho hefði ekki náð betri árangri með Frakka en Domenech

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michel Platini, forseti UEFA.
Michel Platini, forseti UEFA. Mynd/AFP
Michel Platini, forseti UEFA, segir að leikmenn franska landsliðsins sem stóðu fyrir verkfallinu á HM í Suður-Afríku í sumar hefðu ekki átta að fá að spila aftur fyrir franska landsliðið. Platini kallaði viðkomandi leikmenn algjöra kjána og fullkomlega ónothæfa í viðtali við franskt blað.

Franska landsliðið neitaði að æfa eftir að Nicolas Anelka var rekinn heim fyrir að drulla yfir landsliðsþjálfarann Raymond Domenech í hálfleik á tapi liðsins á móti Mexíkó. Patrice Evra (5 leikir), Franck Ribery (3 leikir) og Jeremy Toulalan (1 leikur) fengu allir bann fyrir sinn þátt í verkfallsaðgerðum leikmanna liðsins.

„Menn eiga ekki að komast upp með að skíta út ímynd franska landsliðsins. Ég hefði verði miklu harðari og sett þá alla í lífstíðarbann," sagði Platini í viðtali við So Foot magazine.

„(Jose) Mourinho hefði ekki getað staðið sig betur en Domenech. Við eigum ekki gott lið og þetta er ekki góð kynslóð hjá frönskum fótboltamönnum," sagði Platini í viðtalinu.

Anelka talaði um það í síðustu viku að hann ætlaði aldrei að syngja aftur franska þjóðsönginn en Platini hlær bara af því og segist sjálfur aldrei hafa sungið þjóðsönginn þegar hann spilaði fyrir franska landsliðið.

„Ég söng aldrei Marseillaise-sönginn og samt elska ég Frakkland. Þetta er stríðssöngur sem á ekkert skylt við gleðina við það að spila fótbolta," sagði Platini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×