Innlent

Íslendingur í Seoul: Stríð skilar aldrei neinu

Sverrir Örn ásamt kóreskri kærustu sinni, Young Eun Jang og tveimur vinum þeirra sem verða kallaðir í herinn ef það brýst út stríð. Þeir heita Sung Eun Suh og Joon Ho Jang. Þeir voru báðir í skiptinámi á Íslandi haustið 2008.
Sverrir Örn ásamt kóreskri kærustu sinni, Young Eun Jang og tveimur vinum þeirra sem verða kallaðir í herinn ef það brýst út stríð. Þeir heita Sung Eun Suh og Joon Ho Jang. Þeir voru báðir í skiptinámi á Íslandi haustið 2008.
„Nánast allir mínir vinir hafa þjónað þessari herskyldu eða eru að þjóna henni núna og ef það kæmi til stríðs yrðu þeir allir kallaðir til," segir segir Sverrir Örn Sverrisson, kóreskunemi sem dvalið hefur í Seoul síðan í ágúst. Allir karlmenn í Suður-Kóreu þurfa að þjóna herskyldu í 22 mánuði milli tvítugs og þrítugs.

Sverrir segir allt með kyrrum kjörum í Seoul enn sem komið er og lífið gengur sinn vanagang. „Þetta er jú ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist. Þó er ég búinn að kynna mér bara til vona og vara hvar sendiráð Norðurlandanna eru hér í Seoul. Ísland er ekki með sendiráð hér. Finnska sendiráðið er bara í nokkuð hundruð metra færi frá heimili mínu hér. Vissulega er ég mjög reiður yfir þessu, ég mjög mótfallinn stríði og stríðsrekstri. Stríð skilar aldrei neinu."

Þetta segir Sverrir í bréfi sem hann sendir til fréttastofu. Þar kemur fram að hann hafi þó nokkrar áhyggjur af heræfingu sem Bandaríkin og Suður-Kórea hafa skipulagt næstu helgi.

Heræfing um helgina

„Þeir hafa staðfest að heræfinginn verði, en hún verður einmitt í Gula-hafinu, sunnan við átakastað. Þetta gæti ögrað valdamönnum í Norður-Kóreu frekar. Svo hefur Suður-Kórea frestað matvælaaðstoð sem átti að fara með Rauðakrossinum á þau svæði sem fóru verst út úr vatnsflóðunum í haust í Norður-Kóreu. Það sem ég myndi helst vilja sjá er að Kína beiti sér að meiri krafti í málamiðlun milli landanna og tel ég aðkomu þeirra að málunum lykilinn að farsælum málslokum," segir hann.

Í árásinni á Yeonpyeong-eyjar dóu tveir sjóherliðar og tveir almennir borgarar. Átján slösuðust, þar af þrír almennir borgarar. Fimm einbýlishús urðu fyrir sprengjum og 17 önnur brunnu til grunna útfrá eldi af völdum sprengjunum. Auk þess varð 70% gróðurlendis þessar smáeyju eldi að bráð, en í nótt eru 80 slökkviliðsmenn á 20 slökkviliðsbílum búnir að vera berjast við eldana á eyjunni. Sverrir segir að hundruðir manna, aðallega eldra fólk og börn, hafa flúið heimili sín á eyjunni til meginlands Suður-Kóreu. Nokkur hundruð manns eru enn á eyjunni og hafast sumir við í sérstökum neðanjarðarbyrgjum sem eru á eyjunni vegna ótta á frekari árásum frá Norður-Kóreu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×