Fótbolti

Ísmaðurinn Gylfi Þór slær í gegn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Sigurðsson fagnar marki sínu í gær.
Gylfi Sigurðsson fagnar marki sínu í gær. Nordic Photos / Bongarts
Gylfi Þór Sigurðsson gengur undir nafninu ísmaðurinn í þýskum fjölmiðlum í dag eftir jöfnunarmarkið sem hann skoraði fyrir Hoffenheim gegn Leverkusen í gær.

Gylfi Þór er ekki fyrsti íslenski knattspyrnumaðurinn sem fær þetta viðurnefni en óhætt er að segja að Gylfi hafi verið ískaldur þegar hann skoraði úr vítaspyrnu á fjórðu mínútur uppbótartímans í gær og tryggði sínum mönnum annað stigið í leiknum.

„Ég segi bara: Ísmaðurinn," sagði Marvin Compper, varnarmaður Hoffenheim, eftir leikinn í gær.

Þetta var fimmta mark Gylfa með Hoffenheim í vetur en hann kom til félagsins frá Reading í Englandi í haust.

„Ég hef þrisvar eða fjórum sinnum áður tekið víti í lokin og alltaf skorað," sagði Gylfi sjálfur í þýskum fjölmiðlum eftir leikinn.

Rudi Völler, fyrrum leikmaður og þjálfari þýska landsliðsins, er nú yfirmaður íþróttamála hjá Leverkusen og var hundóánægður með sína menn.

„Við byrjuðum stórkostlega og komumst strax í 2-0. En þá hættum við bara að spila," sagði Völler.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×