Erlent

Déjá vu fyrir Joe Biden

Óli Tynes skrifar
Biden og Netanyahu: You did WHAT?
Biden og Netanyahu: You did WHAT?

Bandaríkjamenn hafa harmað þá ákvörðun Ísraela að byggja yfir eittþúsund ný heimili á Vesturbakkanum. Í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneytinu segir að þessi ákvörðun valdi miklum vonbrigðum og hún skaði tilraunir til að koma á beinum friðarviðræðum milli Ísraela og palestínumanna. Palestínumenn vilja fá Vesturbakkann sem óskiptan hlut af sjálfstæðu ríki sínu.

Maður hefur gengið undir manns hönd við að reyna að fá Ísraela ofan af frekari framkvæmdum, en án árangurs. Þessi ákvörðun varpar skugga á heimsókn Benjamíns Netanyahu forsætisráðherra sem nú er í heimsókn í Bandaríkjunum. Þar mun hann meðal annars ræða við Joe Biden, varaforseta. Það er sjálfsagt hálfgert déjá vu fyrir Biden blessaðan, því Ísraelar notuðu tækifærið þegar hann var í heimsókn þar í landi fyrr á þessu ári til þess að tilkynna um enn eina stækkun landnemabyggða á Vesturbakkanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×