Fótbolti

Skeggið í lagi en æfingagallinn ekki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Diego Maradona með skeggið góða.
Diego Maradona með skeggið góða. Nordic Photos / AFP

Þær Dalma og Giannina, dætur Diego Maradona landsliðsþjálfara Argentínu vilja að hann skilji eftir æfingagallann upp á hóteli og klæðist jakkafötum á hliðarlínunni þegar Argentína er að spila.

Þetta sagði Dalma sem er nú komin til Suður-Afríku. „Ég ætla að bíða eftir því að Giannina komi því hún hefur meira tískuvit en ég," sagði hún við fjölmiðla.

„En við ætlum að biðja hann um að fara í jakkaföt," bætti hún við. Dalma sagði einnig að Maradona hefði lagt mikið af undanfarið og væri nú fimmtán kílóum léttari. „Hann getur núna hlaupið með á æfingum," sagði hún.

Maradona er nú með myndarlegt alskegg en Dalma sagði það eiga sínar skýringar. „Hann hefur ekki rakað sig síðan hundurinn réðst á hann. Skeggið er til að fela örið sem hann fékk."

Maradona þurfti að fara í aðgerð eftir að einn hundanna hans beit hann í andlitið nú í mars síðastliðnum. Dæturnar hafa því gefið grænt ljós á skeggið en hann þarf þó að skipta út æfingagallanum fyrir almennileg jakkaföt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×