Fótbolti

Kóreumenn slógu í gegn í fyrsta leik - unnu Grikki 2-0

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Park Ji-Sung fagnar marki sínu.
Park Ji-Sung fagnar marki sínu. Mynd/AP
Suður-Kóreumenn unnu sannfærandi 2-0 sigur á Grikkjum í fyrsta leik B-riðils á HM í Suður-Afríku í dag. Manchester United maðurinn Park Ji-Sung skoraði seinna markið en það fyrra gerði Lee Jung-soo strax á 6. mínútu leiksins.

Kóreumenn fengu draumabyrjun þegar Lee Jung-soo skoraði fyrsta markið eftir aukaspyrnu á 6. mínútu leiksins. Park Ji-Sung fiskaði aukaspyrnuna. Lee var aleinn á réttum stað á fjærstöng og nýtti sér það að gríska vörnin sofnaði á verðinum.

Park Ji-Sung innsiglaði síðan sigurinn á 52. mínútu þegar hann nýtti sér slæma sendingu varnarmanns Grikkja. Hann stal boltanum og fór alla leið sjálfur og skoraði á laglegan hátt.

Grikkir áttu smá sprett um miðjan seinni hálfleikinn en annars voru Kóreumenn miklu sterkari í leiknum og gátu alveg eins bætt við fleiri mörkum í lokin.

Argentínumenn og Nígeríumenn mætast í hinum leik riðilsins klukkan 14.00 í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×