Innlent

Komu mjólk yfir gömlu brúna

Mjólkurbíllinn á leið yfir brúna.
Mjólkurbíllinn á leið yfir brúna. MYNDRagna Aðalbjörnsdóttir

Þrír stórir mjólkurbílar fóru yfir gömlu brúnna á Markarfljóti klukkan hálf tíu í morgun og eru byrjaðir að safna mjólk af bæjum fyrir austan fljótið. Hún verður svo selflutt á léttum bíl vestur yfir brúnna.

Öðrum kosti hefðu bændur neyðst til að fara að hella henni niður í dag því allt tankarými var að fyllast og kýrnar halda áfram að mjólka. Leiðangurinn er farinn með samþykki Vegagerðar og lögreglu, og björgunarsveitarmenn eru til taks ef eitthvað fer úrskeiðis.

Brúin er er orðin gömul og hrum og er ekki lengur í notkun. Þar sem hún hefur takmarkað burðarþol verður léttur mjólkurbíll látinn selflytja mjólkina úr stóru bílunum þremur yfir í stóran tankbíl vestan megin við fljótið. Ráðgert er að safna 25 þúsund lítrum af mjólk og að það taki sex klukkustundir.

Að því loknu verður bílunum þremur ekið tómum vestur yfir brúnna, og stóri tankbíllinn flytur mjólkina á Selfoss.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×