Innlent

Þingmaður: Hættið að senda mér tölvupóst

Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, biður almenning um að hætta að senda sér tölvuskeyti vegna frumvarps um vatnalög sem bíður afgreiðslu Alþingis. Hún segir að tölvupósthólfið hennar sé að fyllast af áskorunum vegna frumvarpsins.

Vatnalögin frá árinu 2006 taka gildi 1. júlí en frumvarpið fjallar um afnám laganna. Ólína segir í pistli á heimasíðu sinni að nú „rigni yfir" þingmenn áskorunum um að fella lögin úr gildi. Hún hafi ákveðið að svara skeytunum en þó gefist fljótlega upp.

„Því læt ég nægja að segja hér á minni eigin síðu í eitt skipti fyrir öll: Í öllum bænum hættið að senda mér tölvuskeyti um þetta mál. Ég verð að geta lesið erindin sem berast í hólfið mitt, en eins og sakir standa drukkna þau í áskorana farganinu vegna vatnalaga," segir Ólína í pistlinum sem hægt er að lesa hér.

Þá segist Ólína vilja vatnalögin frá 2006 verði numin úr gildi fyrir þinglok og að hún þurfi engin tölvuskeyti til að brýna sig í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×