Innlent

Ekki verra ef klofningur Sjálfstæðisflokks fengist í kaupbæti

Var það persónulegur metnaður Gunnars Thoroddsens fyrst og fremst sem rak hann til hinnar umdeildu ríkisstjórnarmyndunar árið 1980 eða var hann að bjarga heiðri Alþingis? Um þetta ræddu fyrrverandi stjórnmálaforingjar á fundi í Háskóla Íslands í dag. Tilefni fundarins var útkoma ævisögu Gunnars, eftir Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing.

Þótt stjórnmálaferill Gunnars spanni nærri hálfa öld mun hans lengst verða minnst fyrir að hafa, ásamt nokkrum öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokks, myndað ríkisstjórn með Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi fyrir 30 árum. Margir sjálfstæðismenn töldu hann svikara.

Einn ráðherra þeirrar stjórnar, Svavar Gestsson, var spurður í dag hvort meginmarkmið Alþýðubandalagsmanna með stjórnarmynduninni hafi verið að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn.

Nei. Víðsfjarri, svaraði Svavar. "En hins vegar getur vel verið að einhverjum hjá okkur hafi ekki þótt það neitt verra að það fylgdi með í kaupbæti," bætti hann svo við, og vakti hlátur fundargesta.

Heyra mátti á ævisöguritararanum Guðna að persónulegur metnaður Gunnars hafi ráðið miklu um stjórnarmyndunina en það mat byggir hann á dagbókarfærslum Gunnars.

Þessu er Friðrik Sophusson sammála en telur fleira hafa ráðið ákvörðun Gunnars. Hann hafi ekki viljað að forseti Íslands myndaði utanþingsstjórn. "Þannig að það var líka metnaður fyrir hönd Alþingis," sagði Friðrik.

Svavar segir að á þessum tíma hafi menn verið búnir að reyna mjög lengi að mynda ríkisstjórn, meðal annars þjóðsstjórn, en án árangurs, og utanþingsstjórn hefði verið næsta skref. Hún hefði verið niðurlægjandi fyrir þingræðið, að mati margra þá.

Gunnar Thoroddsen var maður mikilla kosta en einnig galla, segir Guðni. Hann hafi unnið mikla sigra en einnig ósigra. Hann hafi verið hæfileikaríkur en einnig breyskur.

"Og framar öllu: Maður sem skráði þetta allt saman niður. Þannig að við höfum vitnisburðinn til að kveða upp dóm af einhverju viti," segir Guðni Th. Jóhannesson.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×