Erlent

Engar vísbendingar um að pyntingar hafi skilað árangri

MYND/Getty

Breskir ráðamenn segja ekkert hæft í staðhæfingum George Bush fyrrverandi bandaríkjaforseta, að pyntingar í Guantanamo hafi komið í veg fyrir hryðjuverk.

Í nýrri ævisögu Bush segir forsetinn fyrrverandi að sú aðferð að yfirheyra fanga í Guantanamo fangabúðunum með því að binda þá niður og hella vatni í andlit þeirra hafi komið í veg fyrir hryðjuverkaárásir, meðal annars á Heathrow flugvelli í London og í Canary Wharf viðskiptahverfinu.

Þessum fullyrðingum er vísað á bug í blaðinu Guardian í dag af yfirmönnum bresku leyniþjónustunnar. Þeir segja ekkert benda til þess að pyntingaraðferðin hafi skilað þessum árangri. Bush talaði sérstaklega um Khalid Sheikh Mohammed, sem talinn er hafa skipulagt árásirnar ellefta september 2001, og tilgreindi sérstaklega að Mohammed hafi sagt frá árásunum í Bretlandi í yfirheyrslum. Hann var látinn sæta pyntingunum 183 sinnum í Guantanamo búðunum eftir að hann var handtekinn.

Atvikið á Heathrow sem Bush vísar til átti sér hinsvegar stað rúmum mánuði áður en Mohammed var handsamaður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×