Innlent

Mörg tonn af ferskum fiski bíða eftir flugi

„Við eigum ein sjö tonn af ferskum flökum á Keflavíkurflugvelli sem bíða þess að komast í flug en staðan er vægast sagt mjög óljós. Við erum í stöðugu sambandi við viðskiptavini okkar í Evrópu.

Ef einhverjar glufur opnast þá munum við nýta þær," segir Sólveig Arna Jóhannesdóttir, sölustjóri ferskfiskafurða hjá HB Granda, en útflutningur á ferskum fiski með flugi er nú í uppnámi eftir að flugsamgöngur á milli Íslands og Vestur-Evrópu lömuðust í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli.

Fyrirtækið heldur þeim möguleika opnum að fljúga með fiskinn þangað sem er opið og flytja með flutningabílum til kaupenda. „Vandinn er sá að kaupandi, sem vildi gjarnan fá ferskan fisk í dag, hefur hugsanlega takmarkaðan áhuga á sambærilegri sendingu á morgun," segir Sólveig.

Það setur vanda fiskframleiðenda hér á landi í samhengi að um miðjan dag í gær var búið að fella niður átján þúsund flugferðir í Evrópu. Ef heldur áfram sem horfir þurfa fyrirtæki sem flytja út ferskan fisk að taka ákvarðanir um hvernig á að haga vinnslunni og fyrir hvaða markaði.

Frændur okkar Norðmenn takast á við sama vanda. Þar er jafnvel búist við að allt flug liggi niðri fram á sunnudag. Verð á ferskum eldislaxi, sem fluttur er um allan heim með flugi, féll um þrettán prósent í gær. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×