Innlent

Ölvaður skipstjórnandi sigldi á annað skip

Mynd úr safni
Skipstjórnandi á Vestfjörðum hefur verið dæmdur fyrir brot á siglingalögum með því að hafa stjórnað bát undir áhrifum áfengis og orðið valdur að árekstri bátsins við annan bát við svonefndan Hrygg út af Kópanesi. Atvikið átti sér stað í ágústbyrjun á þessu ári og handtók lögreglan manninn við komu hans ti hafnar á Bíldudalshöfn.

Málið var þingfest í Héraðsdómi Vestfjarða 3. nóvember en ákærði sótti ekki þing og málið því dómtekið í fjarveru hans, í samræmi við lagaheimildir.

Skipstjórinn leitaði sér meðferðar við áfengissýki skömmu eftir atvikið.

Maðurinn var með hreint sakavottorð og þótti dómara hæfilegt að dæma hann til greiðslu 150 þúsund krónu sektar, auk þess sem hann var sviptur skipstjórnarréttindum í fjóra mánuði frá birtingu dóms. Á þeim tíma er manninum ennfremur óheimilt að gegna stöðu stýrimanns.

Auk þess skal maðurinn greiða rúmar 40 þúsund krónur í sakarkostnað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×