Innlent

Ígrip stjórnvalda í atvinnulífið hættuleg þróun

Ígrip stjórnvalda í atvinnulífið hér á landi er hættuleg þróun en slík afskipti eru eitt helsta einkenni landa sem fara úr því að vera auðug í að verða fátæk á stuttum tíma. Þetta er mat Jóns Daníelssonar, hagfræðings.

Jón gagnrýndi atvinnustefnu stjórnvalda harðlega í erindi á morgunfundi Íslenskra verðbréfa. Hann sagði að hún hefði ekki verið pólitískari en nú síðan frá því hann var barn.

„Eitt helsta einkenni af löndum, sem fara úr því að verða tiltölulega auðug í að verða fátæk á einni kynslóð, er nákvæmlega það, að stjórnvöld fara að hafa sífellt meiri afskipti af atvinnulífinu. Taka ákvörðun um það, hvaða fyrirtæki mega vera áfram, hvurslags atvinnustarfsemi eigi að vera í gangi og það sem við erum að sjá á Íslandi í dag eru meiri ígrip stjórnmála í atvinnulífið en hefur verið á einni kynslóð og ég held að þetta sé eitt mesta áhættumerki til framtíðar. Við viljum að atvinnulífið sjálft taki ákvörðun um hvaða uppbygging eigi að verða, það eru leikreglur atvinnulífsins sem þurfa að vera skýrar og það sem við sjáum í dag er hið þveröfuga," segir Jón.

Hann gagnrýndi stjórnvöld einnig fyrir stefnuleysi í stórum málum:

„Af hverju voru ráðamenn ekki tilbúnir með svar við dómi Hæstaréttar? Af hverju litu þeir út eins og jólasveinar sem snerust í hringi í tvær vikur með svarið. Það sama gildi um viðbrögð við skuldavanda heimilanna. Legið hafi fyrir í tvö ár að vandamálið yrði stærra og stærra. Síðan springur þetta í haust og aftur hafa stjórnvöld ekki áttað sig á því að þetta gæti verið að gerast."

Jón segir að ekki sé búið að taka til í stjórnsýslunni eftir hrunið. Embættismannakerfið sé brotið.

"Ég held að það sé mikill vilji hjá embættismönnum að viðhalda ákvarðanatökuferlum eins og þau voru fyrir hrunið, sem viðheldur stöðu ákveðinna einstaklinga í kerfinu og ákveðinna stöðugilda"




Fleiri fréttir

Sjá meira


×