Innlent

Bolvíkingar vilja fá skuld afskrifaða

Bolungarvík. Í byrjun 2009 skuldaði bærinn Íbúðalánasjóði 146 milljónir vegna kaupa á félagslegu húsnæði.
Bolungarvík. Í byrjun 2009 skuldaði bærinn Íbúðalánasjóði 146 milljónir vegna kaupa á félagslegu húsnæði.

Bolungarvíkurkaupstaður hefur óskað eftir að 81 milljónar króna skuld við Íbúðalánasjóð verði afskrifuð.  Í byrjun síðasta árs felldi sjóðurinn niður 73 milljónir af 146 milljóna króna skuld sveitarfélagsins. Afangurinn var frystur í eitt ár. Nú vill Bolungarvíkurkaupstaður að það sem eftir er verði líka afskrifað. Ekki hefur verið tekin afstaða til þess.

Þetta kemur fram í svari félags- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur Framsóknarflokki. Fyrirspurnin lýtur að skuldum sveitarfélaga hjá Íbúðalánasjóði vegna kaupa þeirra á félagslegu húsnæði.

Fram kemur að sveitarfélögin skuldi sjóðnum 44 milljarða og að um sjö og hálf milljón sé í van­skilum.

Vigdís spyr sérstaklega um afskriftir skulda sveitarfélaga. Í svarinu segir að skuldir sveitarfélaga við sjóðinn séu afskrifaðar eftir að eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaganna hefur óskað eftir því vegna erfiðrar fjárhagsstöðu viðkomandi sveitarfélags.

Árið 2002 hafi verið afskrifaðar 84 milljónir hjá Vesturbyggð, árin 2003 og 2006 hafi samtals 38 milljónir hjá Ísafjarðarbæ verið afskrifaðar og 2005 hafi verið afskrifaðar 37 milljónir hjá Hríseyjarhreppi þegar hann sameinaðist Akureyri.- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×