Erlent

Pólitík enn talin ráða miklu

Mikhaíl Khodorkovskí og Platón Lebedev, fyrrverandi aðaleigendur Yukos. Fréttablaðið/AP
Mikhaíl Khodorkovskí og Platón Lebedev, fyrrverandi aðaleigendur Yukos. Fréttablaðið/AP
Hópur heimsþekktra mennta- og listamanna í Rússlandi hefur þrýst á að dómsyfirvöld sýkni auðmennina fyrrverandi Mikhaíl Khodorkovskí og viðskiptafélaga hans, Platón Lebedev.

Þeir voru helstu stjórnendur og aðaleigendur rússneska olíurisans Yukos. Khodorkovskí var fyrir sex árum talinn ríkasti maður Rússlands og einn af tuttugu auðugustu mönnum heims. Þeir voru handteknir árið 2003, sakaðir um skattsvik og skjalafals og dæmdir í níu ára fangelsi tveimur árum síðar. Ný mál voru höfðuð gegn þeim í fyrra og fjórtán ára fangelsis krafist ofan á fyrri dóm. Yukos-veldið hefur verið brotið upp og auður beggja talinn að mestu uppurinn.

Netútgáfa Radio Free Europe hefur upp úr rússneskum fjölmiðlum að ákærur á hendur þeim Khodorkovskí og Lebedev séu sprottnar undan rifjum stjórnvalda. Þeir hafi stutt pólitíska andstæðinga Vladimírs Pútín, forsætisráðherra Rússlands, og vilji hann halda þeim frá sér. Khodorkovskí situr níu ára dóminn af sér í fangelsi í Síberíu.

Mál tvímenninganna var tekið fyrir í Moskvu í nýliðnum mánuði og er gert ráð fyrir að dómsniðurstaða liggi fyrir um miðjan næsta mánuð.- jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×