Innlent

Dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir hrikalegt ofbeldi gegn eigin börnum

Hæstiréttur Íslands þyngdi dóm yfir karlmanni sem misþyrmdi börnum sínum hrottalega frá sumri 2005 til febrúar 2008. Maðurinn kastaði meðal annars hníf í læri sonar síns. Málið vakti mikla athygli þegar greint var frá því að hann hefði notað son sinn fyrir hnífaskotskífu.

Í dómsorði segir að málið sé án fordóma en maðurinn er dæmdur fyrir ólýsanlegan hrottaskap gagnvart börnum sínum. Meðal annars ógnaði hann syni sínum, fæddum 1993, lífláti með hnífi í eitt skipti og í öðru tilviki með eftirlíkingu af skammbyssu, sem drengurinn hélt að væri raunveruleg hlaðin skammbyssa, en maðurinn hélt byssunni að höfði drengsins.

Þá lét hann drenginn stela fyrir sig áfengi í tjaldútilegu með því að hóta honum lífláti að öðrum kosti.

Maðurinn misþyrmdi dætrum sínum einnig. Önnur þeirra, sem er fædd 1995 og var tíu ára þegar afbrotin áttu sér stað, var handjárnuð við ofn en faðir hennar handlék síðan hníf fyrir framan hana og í nokkur skipti sló hann hana í andlitið.

Þá hrinti hann í eitt skiptið dóttur sinni, sem er fædd 1999, fullklæddri ofan í baðkar sem fullt var af köldu vatni og hélt henni þar í stutta stund. Í eitt skipti lokaði maðurinn hana úti í skamman tíma að vetri til þegar kalt var í veðri og barnið á náttfötum einum klæða. Stúlkan var sex ára þegar misþyrmingarnar hófust.

Að lokum drap maðurinn heimilisköttinn þannig að sonur hans og yngri dóttir urðu vitni að því. Svo lét hann drenginn henda kettinum í ruslatunnu heimilisins þar sem eldri systirin fann hræið.

Maðurinn hlaut átján mánaða dóm í Héraðsdómi Reykjavíkur en hæstiréttur þyngdi dóminn um hálft ár. Þá skal hann greiða syni sínum tólfhundruð þúsund krónur í miskabætur. Dætrum sínum skal maðurinn borga hvorri sexhundruð þúsund krónur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×