Fótbolti

Íranir vonast eftir því að Maradona taki við landsliði þeirra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Maradona.
Diego Maradona. Mynd/AP
Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, kinkaði kolli og það var nóg til þess að íranski fjölmiðlar slógu því upp að Diego Armando Maradona gæti orðið næsti þjálfari íranska fótboltalandsliðsins.

„Ahmadinejad forseti: Maradona verður kannski næsti þjálfari landsliðsins," var slegið upp á forsíðunni á íranska blaðinu Ebtekar með stórri mynd af Maradona.

Diego Maradona var ekki endurráðinn sem þjálfari Argentínu eftir að liðið var slegið út úr átta liða úrslitunum á HM í Suður-Afríku í sumar.

Maradona hefur verið orðaður við hin ýmsu landslið síðan þá en háværasti orðrómurinn hefur verið um að hann sé að fara að taka við landsliði Írana sem komst síðast í úrslitakeppni HM árið 2006.

„Þegar forsetinn var spurður út í það hvort Maradona yrði næsti þjálfari landsliðsins þá kinkaði hann kolli," skrifaði blaðamaður Ebtekar í greininni.

Maradona er nýrorðinn fimmtugur og hefur verið duglegur að ferðast um heiminn síðan að hann hætti með landslið Argentínu. Það veit þó enginn hvort að hann sé að leita sér að nýju landsliðsþjálfarastarfi eða hvort hann sé bara að skoða heiminn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×