Fótbolti

Mexíkó vann sannfærandi sigur á Frakklandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nýi Manchester United maðurinn Javier Hernandez sést hér skora markið sitt í kvöld.
Nýi Manchester United maðurinn Javier Hernandez sést hér skora markið sitt í kvöld. Mynd/AP
Mexíkó vann sannfærandi 2-0 sigur á Frökkum í öðrum leik liðanna í A-riðli HM í Suður-Afríku. Frakkar hafa því ekki skorað mark í tveimur fyrstu leikjum sínum á HM, eru aðeins með eitt stig og á leiðinni úr keppni nema allt falli með þeim í lokaumferðinni.

Mexíkó er með frammistöðu sinni í kvöld orðið eitt allra skemmtilegasta lið keppninnar enda vinnusemin og léttleikandi spil einkennismerki liðsins undir stjórn Javier Aguirre.

Bæði mörk Mexíkó komu í seinni hálfeik og voru þau bæði skoruð af varamönnum. Nýi Manchester United maðurinn Javier Hernandez kom Mexíkó 1-0 á 64. mínútu níu mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður.

Hernandez fékk þá glæsilega stungusendingu frá Rafael Marquez, lék á Hugo Lloris í markinu og skoraði í autt markið.

Seinna markið skoraði Cuauhtemoc Blanco af öryggi úr vítaspyrnu á 79. mínútu eftir að Eric Abidal felldi Pablo Barrera. Barrera hafði þá leikið illa á Patrice Evra og stungið sér inn í teiginn.

Blanco hafi komið inn á sem varamaður á 62. mínútu eða skömmu áður en liðið skoraði fyrra markið. Pablo Barrera fiskaði vítið en hann hafði komið inn á fyrir Arsenal-manninn Carlos Vela sem meiddist í fyrri hálfleik.

Leikur franska liðsins var miklu meira en vandræðalegur í kvöld enda spil liðsins hægt og hugmyndlítið. Leikmenn liðsins virtist ekki hafa mikinn áhuga á því að spila þennan leik í kvöld og útkoman voru því enn ein vonbrigðin franska liðsins undir stjórn Raymond Domenech.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×