Innlent

Siðbótar og rannsókna krafist vegna Árbótar

Alþingismenn kröfðust þess í gær að Árbótarmálið yrði rannsakað. Stjórnarþingmenn kölluðu eftir bættri siðvitund og því að menn létu af kjördæmapoti.

Árbótarmálið var til umræðu á Alþingi í gær annan daginn í röð. Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hóf umræðuna og sakaði Steingrím J. Sigfússon um „dæmalausa stjórnsýslu" og að hafa sagt þinginu ósatt á þriðjudag.

„Ég spyr nú hér, ekki síst með vísan til látlausra ræðuhalda um stöðu þingsins og mikilvægi þess að eftirlitshlutverk þess við framkvæmdavaldið sé virt: Á að sætta sig við svona háttalag? Ég tel að það sé augljóst að Ríkisendurskoðun og umboðsmaður Alþingis, að eigin frumkvæði - enda eru þetta tæki sem þingið hefur - taki þetta mál til skoðunar. Og ég vil líka að viðkomandi þingnefndir, háttvirt félagsmálanefnd og háttvirt fjárlaganefnd, sem hefur í nægu að snúast, skoði þetta mál án tafar."

Þórunn Sveinbjarnardóttir tók undir ákall um ný og betri vinnubrögð og stakk upp á því að menn hættu úthlutun á safnliðum og „kjördæmapoti" við fjárlagavinnuna, „hvernig þingmenn leggjast á sveif, ekki faglega, ekki einu sinni pólitískt, heldur með sértækum hagsmunum í eigin kjördæmi".

Ólína Þorvarðardóttir sagði að margt hefði farið aflaga í stjórnsýslunni og að dæmi væru um „pólitísk afskipti, eftirlitsleysi, virðingarleysi við valdsmörk og faglegt hlutverk stofnana". Því þyrfti að gera gangskör að því að koma í gegn endurbótum á stjórnsýslu landsins með aukinni siðvitund ráðuneyta, stofnana og alþingismanna „sem hiklaust beita áhrifum sínum í gegnum framkvæmdarvaldið og stofnanirnar og hér á þessum vinnustað þvert á alla eðlilega stjórnsýslu og stjórnsýsluumgjörð."

Þá kom Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Norðausturkjördæmi, í pontu og frábað sér að vera bendlaður „við eitthvað hankípankí með hæstvirtum fjármálaráðherra". Hann hefði engum þrýstingi beitt vegna málsins. Sigurður Ingi Jóhannsson, Framsóknarflokki, gerði það sama fyrir hönd samflokksmanna sinna í kjördæminu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×