Fótbolti

Redknapp tileinkar stuðningsmönnum árangurinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tottenham tryggði sér í kvöld sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í fyrsta sinn í sögu félagsins eftir 6-3 samanlagðan sigur á Young Boys frá Sviss.

Tottenham vann síðari leik liðanna í kvöld 4-0 á heimavelli þar sem að Peter Crouch skoraði þrennu. Harry Redknapp, stjóri liðsins, var vitanlega í skýjunum eftir sigurinn.

Síðast þegar Tottenham lék í keppni þeirra bestu í Evrópu var tímabilið 1961-62 þegar að Tottenham tapaði fyrir Benfica í undanúrslitum Evrópukeppni meistaraliða.

„Þetta var frábært kvöld fyrir Tottenham," sagði Redknapp. „Þegar ég var strákur kom ég hingað á æfingar og horfði á leikina gegn Benfica á þessum frábæra tíma. Það er frábært að Tottenham fái aftur að upplifa þá mögnuðu stemningu sem var á vellinum þá og þetta var fyrir stuðningsmennina gert."

„Það eina sem ég vil núna er að koma mér heim og fá mér samloku með beikoni og heitt te. Það er allt og sumt sem ég vil," bætti hann við.

Fyrir aðeins tveimur árum var Tottenham í fallbaráttu í ensku úrvalsdeildinni en þá tók Redknapp við og gjörbreytti gengi liðsins.

„Ég vissi að þetta væri hægt. Tottenham er félag sem hafði ekki staðið undir væntingum í langan tíma. Enda gerði ég ekki miklar breytingar á leikmannahópnum. Leikmenn þurftu bara að öðlast smá sjálfstraust og ef til vill þurftu sumir að breyta hugarfarinu. Þeir brugðust vel við þessum breytingum og hingað erum við komnir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×