Lífið

Draugar Romans Polanski

Pierce Brosnan og Ewan McGregor eru þungamiðja myndarinnar.
Pierce Brosnan og Ewan McGregor eru þungamiðja myndarinnar.

Nafn Romans Polanski hefur oftar verið nefnt í tengslum við 33 ára gamalt dómsmál og Manson-fjölskylduna en kvikmyndagerð hans. Hann þykir þó sýna gamalkunna takta í sinni nýjustu mynd, Ghost Writer.

Kvikmyndin Ghost Writer skartar þeim Pierce Brosnan, Ewan McGregor, Kim Cattral og Timothy Hutton í helstu hlutverkum.

Í stuttu máli segir myndin frá rithöfundi sem er falið það verkefni að skrifa ævisögu fyrrum forsætisráðherra Breta, Adams Lang. Sá virðist hafa töluvert óhreint mjöl í pokahorninu og er meðal annars ásakaður um stríðsglæpi. Rithöfundurinn hefur góða ástæðu til að óttast um líf sitt enda féll síðasti ævisagnaritari forsætisráðherrans frá í dularfullu slysi.

Hér má sjá sýnishorn úr myndinni.

Gagnrýnendur hafa keppst við að hlaða Ghost Writer lofi, telja Polanski vera í sínu besta formi í leikstjórastólnum. Leikstjórinn sjálfur hefur vísað því á bug að sagan sé innblásin af starfi Tony Blair í forsætisráðherrastól Bretlands og Pierce Brosnan viðurkenndi sjálfur í blaðaviðtölum að honum hefði dottið Blair í hug eftir lestur handritsins. Sumir fjölmiðlar eru farnir að spá því að Polanski gæti fengið tilnefningu til Óskarsverðlauna en þá yrði hann, eins og reyndar heimsbyggðin öll, að fylgjast með úrslitunum í sjónvarpi á heimili sínu í París.

Roman Polanski var dæmdur fyrir að hafa haft samræði við stúlku undir lögaldri. Hann flúði land og býr nú í París. Kvikmyndir hans eru margar hverjar hreinasta meistaraverk en dómurinn verður alltaf nátengdur nafni hans.

Polanski er enn eftirlýstur af yfirvöldum í Kaliforníu fyrir að hafa átt samræði við þrettán ára gamla stúlku inni á baði hjá Jack Nicholson þann 11. mars 1977. Polanski var þá illa á sig kominn andlega eftir að Manson-gengið réðst inn á heimili hans átta árum áður og myrti ólétta eiginkonu hans, leikkonuna Sharon Tate. Polanski hefur alla tíð haldið því fram að hann hafi ekki nauðgað stúlkunni, honum hafi ekki verið kunnugt um aldur hennar. Leikstjórinn var dæmdur til 90 daga geðmeðferðar í Chino ríkisfangelsinu en var útskrifaður eftir aðeins 42. Í kjölfarið lagði dómari í málinu á ráð um að dæma Polanski til frekari refsingar en þegar leikstjórinn komst á snoðir um þær fyrirætlanir flúði hann til Parísar þar sem hann dvelst.

Polanski var hnepptur í stofufangelsi af svissneskum yfirvöldum á síðasta ári en var sleppt eftir fjögurra mánaða dvöl þar sem framsalsbeiðni Bandaríkjastjórnar þótti ekki fullnægjandi. Stúlkan, Samantha Geimer, hefur opinberlega fyrirgefið Polanski fyrir það sem hann gerði. Auk þess hefur hún beðið bandarísk yfirvöld um að aflétta handtökuskipuninni. „Polanski eyðilagði ekki líf mitt, það voru fjölmiðlar. Ég vona að þetta mál verði látið niður falla því þá hætta blaðamenn að hringja í hvert skipti sem hans nafn ber á góma og ég get haldið áfram að lifa mínu lífi," sagði Geimer á sínum tíma en hún er þriggja barna móðir á Havaí.

Kvikmyndir Polanski eru margar hverjar hrein listaverk; Rosmary's Baby hræddi líftóruna úr "68 kynslóðinni, Jack Nicholson skaust endanlega upp á stjörnuhimininn sem Jack Gittes í China Town og Adrien Brody getur þakkað leikstjóranum fyrir að einhver muni efti nafninu hans eftir stórkostlega frammistöðu þeirra tveggja í The Pianist. Síðasta myndin úr smiðju Polanski var frumsýnd fyrir fimm árum en það var Oliver Twist með Ben Kingsley í hlutverki þjófakóngsins Fagins. Polanski er án nokkurs vafa snillingur í kvikmyndagerð en því miður fyrir hann, verður minning hans alltaf nátengd kynferðislegri misnotkun á barni og Manson-morðunum.

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×