Innlent

Tveimur fjórtán ára vikið úr skóla fyrir kannabisneyslu

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Tveimur níundubekkingum var vísað tímabundið úr skóla á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku eftir að hafa neytt kannabisefna á skólalóðinni. Skólastjórar óttast að vímuefnaneysla ungmenna sé að aukast og að fíkniefnasalar beini í auknum mæli athygli sinni að þeim.

Það var í síðustu viku sem tveimur níundubekkingum, fjórtán ára börnum, var vísað tímabundið úr skóla hér á höfuðborgarsvæðinu eftir að hafa neytt kannabisefna á skólalóðinni. Nemendurnir fóru inn í skólann eftir vímuefnaneysluna og voru í annarlegu ástandi.

Í síðustu viku voru einnig kynntar niðurstöður könnunar sem gerð var á vímuefnanotkun nemenda í efsta bekk grunnskólanna. Niðurstöðurnar voru á þá leið að mun færri nemendur neyti vímuefna nú en fyrir tólf árum. Daníel Gunnarsson, skólastjóri í Ölduselsskóla, óttast að ástandið sé nú breytt frá því sem það var þegar könnunin var framkvæmd fyrr á árinu.

Daníel óttast að þeir sem markaðssetja svona efni séu að herja meir á grunnskólabörn en áður.

Undir þetta sjónarmið taka fleiri skólastjórar sem fréttastofa hefur rætt við í dag. Það sé t.a.m. orðið algengara að skólahjúkrunarfræðingar og læknar aðstoði foreldra við að gera fíkniefnapróf á börnum sínum.

Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, segir vísbendingar um að ástandið hafi versnað. Biðlistar hefðu verið að lengjast og fleiri ungmenni komi til meðferðar nú en áður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×