Innlent

Slökktu ítrekað á Oslóartrénu fyrir mistök

Oslóartréð. Jólaskreytingarnar settar upp.
Oslóartréð. Jólaskreytingarnar settar upp.

„Það er búið að gera við þetta. Svo virðist sem rofi hafi verið vitlaust stilltur," segir Sighvatur Arnarson, skrifstofustjóri gatna- og eignaumsýslu Reykjavíkurborgar, en glöggir vegfarendur tóku eftir því að það slökknaði á jólaljósunum á Oslóartrénu á Austurvelli yfir daginn. Tréð var tendrað fyrir rúmri viku síðan.

Sighvatur segir borgarbúa hafa látið vita af þessu í dag en þá kom í ljós að ljósin voru vitlaust tengd en þau fylgdu götulýsingunni. Því slökknaði á jólaljósunum ásamt ljósastaurunum, svo kviknuðu ljósin aftur um kvöldið.

Sighvatur segir að það sé hefð að borgarstjóri kveiki á ljósunum á Oslóartrénu, svo loga þau þar til tréð er tekið niður í janúar.

Hann segist ekki kunna að skýra þessi mistök en handtökin hafi verið snör eftir að borginni barst ábending um mistökin og tréð ljómi nú sem aldrei fyrr.

Aðspurður hvort Reykjavíkurborg dragi almennt úr lýsingu á jólaljósunum í ár, segir Sighvatur svo ekki vera.

Það er kannski mörgum borgarbúum minnistætt þegar Reykjavíkurborg tilkynnti fyrr á árinu að dregið yrði úr götulýsingum í sparnaðarskyni.

Jólaskrautið lýsir upp skammdegið nú líkt og það hefur gert síðustu ár að sögn Sighvats.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×