Innlent

„Fyrirtækin losna úr klafa samningaþófs og skuldavanda“

Árni Páll Árnason vonast til þess að fyrir næsta sumar verði öll lífvænleg fyrirtæki í skuldavandai komin með tilboð um fjárhagslega endurskipulagningu.
Árni Páll Árnason vonast til þess að fyrir næsta sumar verði öll lífvænleg fyrirtæki í skuldavandai komin með tilboð um fjárhagslega endurskipulagningu. Mynd: GVA
Viðskiptaráðherra vonast til að endurskipulagningu lítilla og meðalstórra fyrirtækja verði lokið fyrir næsta sumar, en framkvæmdastjóri úr bankakerfinu segir nýtt samkomulag um úrvinnslu skulda þeirra geta skipt miklu fyrir fyrirtækin.

Samkomulag um leiðir við úrvinnslu skuldamála lítilla og meðalstórra fyrirtækja var kynnt stjórnendum fyrirtækja á fundi á Grand Hótel í morgun, en samkomulagið var undirritað á miðvikudag. Árni Páll Árnason, viðskiptaráðherra, segir nýju leiðina, sem gengur undir heitinu Beina Brautin, gera ráð fyrir því að fyrirtækin verði gerð rekstrarhæf. En af hverju beinist kastljósið að litlum og meðalstórum fyrirtækjum nú tveimur árum eftir hrun?

"Það hefur verið alveg ljóst að gangurinn hefur ekki verið nógu góður í litlu og meðalstóru fyrirtækjunum. Kansnki hefur orkan verið að fara í of ríkum mæli í stóru fyrirtækin þar sem, eðli málsins samkvæmt, eru önnur og flóknari úrlausnarefni."

"Í þessum tilvikum erum við að tala um fyrirtæki þar sem stærðirnar liggja hreinar og beinar fyrir, og það er mjög mikilvægt að þau komist hratt í rekstrarhæft ástand. Við eigum mikið undir því að þau geti farið að bæta við sig verkefnum og stækka. Annars eru allar forsendur hagvaxtar í óvissu."

Árni vonast til þess að fyrir næsta sumar verði öll fyrirtækin komin með tilboð um fjárhagslega endurskipulagningu.

"Strax á miðju næsta ári eiga þessi fyrirtæki því að hafa skýra sýn á það hvað þau geta gert og hvað þau geta leyft sér. Ég vonast til þess að þau fari þá að bæta við sig fólki og auka fjárfestingu, sérstaklega í útflutningi. Við þurfum að nýta þau tækifæri sem við höfum núna, þegar gengið er lágt og aðstæður heppilegar fyrir aukningu í útflutningi. Við erum að reyna að ýta atvinnulífinu af stað í þessu brýnu verkefni."

Björk Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Arion banka, flutti framsögu á fundinum. Þar hefur höfuðáherslan verið lögð á stærri fyrirtæki, en bankinn mun nú beina athygli sinni að fyrirtækjum með skuldir yfir 10 milljónir. Hún segir lausnirnar breyta miklu fyrir fyrirtækin.

"Fyrirtækin losna úr klafa samningaþófs og skuldavanda. Stjórnendur geta einbeitt sér að rekstrinum, bara með því að laga efnahagsreikning sinn og fá óvissunni eytt, og gert það sem þeir gera best; að reka fyrirtækið."

"Þessi lausn hefur virkað. Þetta er sett upp í ákveðið form, sem er einfalt og tryggir jafnræði skuldara og skilvirkni í bönkunum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×