Erlent

Meint ástkona Pútíns verður forsíðustúlka Vogue

Forsíða janúarheftis rússneska Vogue er óneitanlega glæsileg en það er val blaðsins á forsíðufyrirsætu sem vekur einna mesta athygli.
Forsíða janúarheftis rússneska Vogue er óneitanlega glæsileg en það er val blaðsins á forsíðufyrirsætu sem vekur einna mesta athygli.

Nýráðinn ritstjóri rússnesku útgáfu tískuritsins Vogue ætlar að hefja ferilinn með stæl. Forsíðufyrirsæta fyrsta heftis ársins 2011 er Alina Kabajeva en hún er sögð ástkona forsætisráðherra Rússlands, Vladimírs Pútín.

Þegar forsíðan á janúarútgáfu rússneska Vogue lak á netið tóku Rússar andköf þegar þeir sáu hver var forsíðustúlka tískuritsins. Hin 27 ára gamla Alina Kabajeva er þekkt fimleikastjarna í Rússlandi en ein heitasta slúðursaga þar í landi er meint ástarsamband hennar og Vladimírs Pútín forsætis­ráðherra. Einnig er talið að hann sé faðir tveggja ára gamals sonar hennar.

Alina Kabajeva hefur verið sigursæl í fimleikum og á tvær medalíur frá Ólympíuleikunum, átján úr heimsmeistaramótum og 25 úr Evrópukeppnum. Það sem fyrst kveikti í slúðrinu var þegar Pútín bað um sérstakan einkafund með dömunni árið 2000 eftir að hún hafði misst fyrsta sætið á Ólympíuleikunum í Sidney úr höndum sér. Pútín vildi hughreysta hana.

Á góðri stundu Vladimír Pútín sést hér heilsa fimleikastjörnunni og meintri ástkonu sinni, Alinu Kabajevu. Forsætisráðherrann hefur verið kvæntur í 27 ár eða jafnmörg ár og Kabajeva hefur lifað. Nordicphotos/afp

Nýr ritstjóri Vogue, Viktoría Davídova, ræðst því ekki á garðinn þar sem hann er lægstur með val sitt á forsíðufyrirsætu en Pútín er ekki þekktur fyrir að hafa mikla þolinmæði gagnvart fréttaumfjöllun sem er ekki honum í hag. Fyrir tveimur árum birti slúðurblaðið Moskovsky Korrespondent forsíðufrétt um að Pútín hygðist skilja við eiginkonu sína til 27 ára og ganga að eiga fimleikadrottninguna. Skemmst er frá því að segja að blaðið lagði upp laupana strax daginn eftir. Það er því mál manna í Rússlandi að ritsjóri Vogue eigi að stíga varlega til jarðar og að þessi ákvörðun gæti orðið henni að falli. Það verður fróðlegt að sjá hvað framtíð rússneska Vogue ber í skauti sér.

alfrun@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×