Innlent

Rafmagnsstaurar brotnuðu í ofsaveðri í Suðursveit

Mikið óveður brast á suðaustanlands í gærkvöldi og mældist stöðugur vindhraði á Höfn í Hornafirði 30 metrar á sekúndu í gærkvöldi. Ofsaveður var í Suðursveit og brotnuðu þar rafmagnsstaurar þannig að rafmagnslaust varð á stóru svæði og er enn, þar sem ekki viðrar til viðgerða.

Heldur lægði í nótt en aftur er farið að hvessa á svæðinu. Björgunarsveit var kölluð út í nótt til að flytja sjúkling á sjúkrahúsið í Neskaupstað, þar sem Oddskarð var ófært.

Hvassviðrið á að ná hámarki upp úr hádegi og verður hvassast fyrir norðan, með snjókomu. Hætt er við miklum vindstrengjum eins og undir Hafnarfjalli, á sunnanverðu Snæfellsnesi og undir Eyjafjöllum.

Búist er við röskun á innalnandsflugi og víða verður ekkert ferðaveður landveginn. Stormur er þegar á flestum miðum og djúpum umhverfis landið og ísing fyrir norðan.

Sárafá skip eru á sjó og aðeins stór skip. Togarar hafa leitað vars inni á fjörðum fyrir austan og flutningaskip á leið til Neskaupsstaðar heldur sjó suðaustur af Stokksnesi, og kemst hvergi vegna veðurs.

Dreifður hafís nálgast landið norðaustur af Horni, nyrst á Vestfjarðakjálkanum, samkvæmt tilkynningu frá skipi, sem þar átti leið um í gærkvöldi, en nú er ekkert skip lengur á þessum slóðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×