Handbolti

Sebastian: Fengu að spila allt of grófa vörn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sebastian Alexandersson, þjálfari Selfoss.
Sebastian Alexandersson, þjálfari Selfoss.
Sebastian Alexandersson, þjálfari Selfoss, var afar ósáttur við dómara leiksins gegn Aftureldingu í kvöld. Aftureldinga vann tveggja marka sigur á Selfyssingum í kvöld, 26-24, í N1-deild karla.

„Leikurinn var bara eins og ég bjóst við. Þetta var mikil barátta allan tímann en ljósi punkturinn við okkar leik var að við spiluðum almennilegan varnarleik í fyrsta sinn á tímabilinu," sagði Sebastian.

„Hitt er annað mál og ég verð að taka það fram að ég skil ekki hvernig í andskotanum hvernig þeir fóru að því að spila svona varnarleik í 60 mínútur og fá bara eina brottvísun."

„Þeir áttu að fá átta til ellefu brottvísanir í dag, samkvæmt þessum nýju reglum sem er búið að predika fyrir leikmönnum og dómurum. Því miður fengu þeir að spila allt of grófa vörn í dag. Og við bara bökkuðum undan því, því miður."

„Það var engin lína hjá dómurunum í kvöld - bara barsmíðar," bætti Sebastian við.

Selfyssingar voru undir í hálfleik, 11-9, en náðu þó að snúa leiknum sér í hag í síðari hálfleik og voru með þriggja marka forystu þegar um tíu mínútur voru til leiksloka.

„Það þýðir ekki að líta á neitt annað en í okkar eigin barm. Við vorum komnir í góða stöðu og það var allt farið úrskeðis hjá þeim. Þá bara hættum við að spila vörnina af sama ákafa og sóknarleikurinn varð allt of passívur. Menn bara bökkuðu út úr sínum stöðum og þorðu ekki að sækja sigurinn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×