Enski boltinn

Nistelrooy: Vonandi fer ég með á HM

Elvar Geir Magnússon skrifar
Ruud van Nistelrooy hefur fagnað ófáum mörkum.
Ruud van Nistelrooy hefur fagnað ófáum mörkum.

Ruud van Nistelrooy er genginn í raðir þýska liðsins Hamburger SV. Tíðindin eru vonbrigði fyrir ensku liðin West Ham og Tottenham sem höfðu áhuga á leikmanninum.

Van Nistelrooy lagði landsliðsskóna á hilluna eftir að Holland tapaði fyrir Rússlandi á Evrópumótinu 2008 en þessi 33 ára sóknarmaður segist tilbúinn að snúa aftur í hollenska búninginn. Hann stefnir á að vera í landsliðshópi Hollands á HM í Suður-Afríku í sumar.

„Ég stefni á að spila vel fyrir HSV og komast aftur á beinu brautina. Augljóslega set ég stefnuna í kjölfarið að komast í landsliðshópinn og fara með á HM," sagði Nistelrooy.

Bruno Labbadia, þjálfari HSV, er í skýjunum með nýjasta liðsmann sinn. „Ruud hefur sýnt gæði sín með tveimur af bestu félögum Evrópu. Ég er sannfærður um að hann skori mikilvæg mörk fyrir okkur," sagði Labbadia. „Það eykur orðspor félagsins að leikmaður eins og Nistelrooy ákveður að koma hingað.

Nistelrooy segist ekki geta beðið eftir að fá að klæðast búningi Hamburger í fyrsta sinn. „Þetta er félag sem hefur mikinn metnað. Það er eitthvað sem ég hef líka," sagði Nistelrooy.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×