Innlent

Guðlaugur Þór áhyggjufullur vegna sölunnar á Vestia

„Það er algjörlega skýrt að það var farið á svig við lög um bankasýslu ríkisins við sölu Vestia. Þó eru tveir menn sem halda öðru fram og það eru fjármálaráðherra og bankastjóri Landsbankans," segir Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Honum finnst gagnrýnivert að Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, haldi því fram að kaup Framtakssjóðs Íslands á eignarhaldsfélaginu Vestia af Landsbankanum hafi verið gerð í samræmi við lög og reglur.

Steinþór var í viðtali í Íslandi í dag á mánudag þar sem hann hélt fast við þessa skoðun sína og sagðist ekki sjá að nokkur lög hafi verið brotin við söluna. Þar sagðist hann sjálfur hafa komið með hugmyndina að því að haga sölunni á þennan hátt.

„Ég hef bara miklar áhyggjur af því að þessir menn skuli tala svona. Við tölum um það í öðru hvoru orði að við viljum sjá breyttar áherslur og breytt vinnubrögð, meðal annars hjá bönkunum og að þeir virki sem bankar en ekki sem valdastofnanir," segir Guðlaugur.

„Enginn fékk að bjóða í þetta, enginn vissi að þetta væri til sölu," segir Guðlaugur sem er ekki í nokkrum vafa um að reglur hafi verið brotnar.




Tengdar fréttir

Allar reglur brotnar við sölu Vestia

Allar verklagsreglur sem lagt var upp með við sölu eigna bankanna voru brotnar þegar að Landsbankinn seldi eignarhaldsfélagið Vestia til Framtakssjóðs lífeyrissjóðanna, segir Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Af og frá að reglur hafi verið brotnar við sölu Vestia

Steinþór Pálsson, forstjóri Landsbankans, hafnar því alfarið að verklagsreglur bankans um sölu á fyrirtækjum hafi verið brotnar þegar bankinn seldi eignarhaldsfélagið Vestia til Framtakssjóðs lífeyrissjóðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×