Fótbolti

Gista Frakkarnir á alltof flottu hóteli í Suður-Afríku?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Franska landsliðið á æfingu.
Franska landsliðið á æfingu. Mynd/AP
Franski íþróttamálaráðherrann hefur gagnrýnt gistiaðstöðu franska fótboltalandsliðsins á meðan HM í Suður-Afríku stendur. Franska liðið hefur aðsetur á Pezula Resort hótelinu í Knysna þar sem hvert herbergi kostar 78 þúsund krónur nóttin.

„Ég hefði ekki valið þetta hótel, " sagði Rama Yade í útvarpsviðtali en þar vakti hún ennfremur athygli á því að spænska liðið gistir á háskóla-heimavist. Rama Yade sagði að forráðamenn franska sambandsins ættu að kunna sig á krepputímum.

„Ef Frakkland fer langt í keppninni þökk sé þessum frábæru aðsæðum þá verður talað um að þetta hafi verið skynsamlegt val en ef liðið stendur sig illa þá munu menn þurfa að svara fyrir þetta," sagði Rama Yade.

„Það eru greinilega margir öfundsjúkir út í þetta hótel okkar. Þetta eru frábærar aðstæður og við búum mjög vel. Það er víst ekki leyndarmál lengur," sagði Alou Diarra, miðjumaður franska landsliðsins.

„Við hlustum ekki á þetta og ætlum bara að einbeita okkur að mótinu. Við ætlum ekki að blanda saman fótbolta og pólitík. Okkar markmið er að vera tilbúnir fyrir leikinn á móti Úrúgvæ," bætti Diarra við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×