Erlent

Bjóða Kínverjum birginn

Liu Xiaobo og kona hans hafa bæði mátt þola frelsissviptingu sökum skoðana sinna. NordicPhotos/AFP
Liu Xiaobo og kona hans hafa bæði mátt þola frelsissviptingu sökum skoðana sinna. NordicPhotos/AFP
Kínversk stjórnvöld hafa þrýst á evrópsk ríki að sniðganga afhendingar­athöfn Friðarverðlauna Nóbels í næsta mánuði. Þar verður kínverski andófs­maðurinn og rithöfundurinn Liu Xiaobo heiðraður, í mikilli óþökk stjórnvalda í Peking. Íslensk stjórnvöld staðfesta að þeim hafi borist bréf frá Kínverjum varðandi þetta mál, en engu að síður mun fulltrúi Íslands sækja athöfnina.

AP-fréttastofan hafði í gær eftir Cui Tiankai, einum æðsta manni utanríkismála í Kína, að þær Evrópuþjóðir sem hyggist senda fulltrúa á athöfnina þurfi að spyrja sig hvort þeim sé í mun að eiga vinsamleg samskipti við Kína eða hvort þau kjósi heldur að gera atlögu að réttarkerfinu þar í landi. „Ef þau velja rangan kost munu þau þurfa að mæta afleiðingunum,“ sagði Tiankai, en fór ekki nánar út í hverjar þær gætu verið.

Samkvæmt AP hafa yfirvöld í Finnlandi og Svíþjóð staðfest að hafa fengið bréf frá Kína, en enginn hefur enn afboðað sig.

Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, staðfesti við Fréttablaðið að íslensk stjórnvöld hefðu fengið bréf frá kínverskum yfirvöldum sem varðaði afhendinguna, en gat ekki tjáð sig frekar um efni bréfsins.- þj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×