Fótbolti

Stabæk fær lánaðan leikmann frá Start vegna meiðsla Veigars

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Veigar Páll Gunnarsson missir af mörgum leikjum Stabæk á næstu vikum.
Veigar Páll Gunnarsson missir af mörgum leikjum Stabæk á næstu vikum. Mynd/Stefán
Stabæk hefur fengið hollenska sóknarmanninn Bernt Hulsker á láni frá Start til að leysa af Veigar Páll Gunnarsson sem meiddist á ökkla í síðasta leik og verður frá keppni í að minnsta kosti fjórar til sex vikur.

Hinn 32 ára gamli Bernt Hulsker missti byrjunarliðssæti sitt í Start-liðinu og vildi fá að spila meira en samningur hans við Start rennur út í lok ársins.

Stabæk er með Hulsker á láni til 1. ágúst og mætti hann á sína fyrstu æfingu í gær. Hann hefur skorað 8 og 9 mörk fyrir Start undanfarin tvö tímabil.

Veigar Páll byrjaði tímabilið vel með Stabæk og lagði upp tvö mörk í fyrsta leiknum áður en hann varð að yfirgefa völlin vegna meiðsla.

Veigar missti af næsta leik en leikurinn á móti Alesund um síðustu helgi var sá fyrsti sem hann spilaði eftir að hann náði sér af þeim meiðslum. Hann meiddist hinsvegar eftir aðeins rúmar tíu mínútur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×