Fótbolti

Fyrsta tap Mainz á tímabilinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stuðningsmenn Mainz voru kátir fyrir leikinn í dag.
Stuðningsmenn Mainz voru kátir fyrir leikinn í dag. Nordic Photos / Bongarts

Hamburg varð í dag fyrst liða til að vinna spútniklið Mainz á tímabilinu í þýsku úrvalsdeildinni.

Það var Jose Paolo Guerrero sem sá til þess að Mainz tapaði sínum fyrstu stigum í dag en liðið hafði unnið fyrstu sjö leiki sína á tímabilinu sem er metjöfnun. Metið var þó ekki slegið í dag.

Guerrero skoraði sigurmark Hamburg á 89. mínútu en leikurinn fór fram á heimavelli Mainz.

Bayern vann á sama tíma góðan sigur á Hannover, 3-0, með þrennu frá Mario Gomez.

Bayern hefur gengið illa í upphafi tímabilsins en þetta var aðeins þriðji sigur liðsins í deildinni frá því að keppni hófst í haust.

Dortmund er nú á toppi deildarinnar en liðið vann 2-1 sigur á Köln á útivelli í gær. Dortmund og Mainz eru með 21 stig, sjö stigum meira en Hamburg sem er í þriðja sæti.

Bayern komst upp í níunda sæti deildarinnar með sigrinum í dag.

Úrslit dagsins:

Mainz - Hamburg 0-1

Bayern - Hannover 3-0

Bremen - Freiburg 2-1

Schalke - Stuttgart 2-2

St. Pauli - Nürnberg 3-2






Fleiri fréttir

Sjá meira


×