Innlent

Árni Páll segir tolla loka á útflutning

Árni Páll Árnason
Árni Páll Árnason
Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir samninga um viðskiptafrelsi ekki ná takmarki sínu ef tollkvótum er beitt með þeim hætti að varan sé dýrari á kvótunum en utan þeirra. Slíkt geti ekki verið markmið samninga af slíku tagi.

Þetta kom fram í svari Árna Páls við fyrirspurn Þorgerðar K. Gunnarsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í gær. Tilefnið var umræða um tolla á innfluttar landbúnaðarvörur.

Líkt og greint hefur verið frá urðu breytingar á tollunum árið 2009 þegar teknir voru upp verðtollar í stað magntolla. Þorgerður vitnaði til GATT-samningsins, en þar var komið á fót tollkvótum á búvörur með það fyrir augum að tryggja samkeppni og lægra vöruverð.

Raunin er sú að í einhverjum tilvikum eru vörur dýrari á tollkvótunum en utan þeirra.

Árni Páll segir þetta brjóta í bága við markmið samninganna. Hann segir það geta verið sjálfstætt markmið að loka fyrir innflutning á ákveðnum vörum. Það sé hins vegar til vansa fyrir íslenskt samfélag og loki á útflutning sömu vara.

„Það er afskaplega vanhugsað að íslensk landbúnaðarframleiðsla fái ekki notið þeirra vaxtarsprota sem útflutningur býður upp á.“- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×