Erlent

Biður eigin­konuna af­sökunar á að hafa misst giftingar­hringinn í Signu

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Tamberi hlaut gullverðlaun í hástökki á Ólympíuleikunum í Tókýó fyrir þremur árum. 
Tamberi hlaut gullverðlaun í hástökki á Ólympíuleikunum í Tókýó fyrir þremur árum.  AP

Gianmarco Tamberi, hástökkvari og fánaberi Ítala á Ólympíuleikunum, lenti í því óhappi á setningarathöfn leikanna í gær að missa giftingarhring sinn ofan í Signu. 

Tamberi skrifaði einlæga færslu á Instagram í dag þar sem hann biður eiginkonu sína afsökunar á óhappinu.

„Fyrirgefðu, ástin mín. Fyrirgefðu. Of mikið vatn, of mörg kíló sem ég hef misst síðustu mánuði eða mögulega hinn gríðarmikli eldmóður fyrir því sem við vorum að gera,“ skrifar hann til útskýringar á því sem gerðist. 

Þá kemur fram löng og dramatísk frásögn af atburðarásinni þegar Tamberi horfði á eftir hringnum skoppa um í bátnum og hafna að lokum ofan í ánni.

Loks segir hann óhappið að vissu leyti ljóðrænt og hringurinn verði ofan í á sem rennur í gegn um borg ástarinnar til eilífðarnóns. 

„Megi óhappið vera fyrirboði þess að ég snúi heim með enn stærra gull,“ skrifar hann að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×