Innlent

Samstaða um að lækka skatta á olíuvinnslu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Efnahags- og skattanefnd Alþingis er einróma sammála um að skattaálögur á olíuvinnslu í íslenskri lögsögu verði lækkaðar. Lagabreyting þessa efnis er talin forsenda næsta olíuleitarútboðs á Drekasvæðinu, sem á að hefjast þann 1. ágúst næstkomandi.

Íslensk stjórnvöld undirbúa nú annað olíuleitarútboð Íslendinga og af því tilefni stóð Orkustofnun fyrir kynningarfundi í Stafangri í Noregi í gær. Fundinn sóttu um 35 manns, þar af fulltrúar átta olíufélaga, að sögn Þórarins Sveins Arnarsonar, verkefnisstjóra olíuleitar hjá Orkustofnun. Í þeim hópi voru bandarísku olíurisarnir Exxon Mobil og Conoco Phillips, en einnig Statoil í Noregi, stærsta fyrirtæki Norðurlanda, og Total, stærsta olíufélag Frakklands.

Í fyrsta Drekaútboðinu fyrir tveimur árum sendu tvö norsk félög inn tilboð en bæði hættu við. Meðal annars fékkst sú skýring á dræmri þátttöku þá að fyrirhuguð skattheimta Íslendinga af olíuvinnslu hefði fælt frá. Til að slíkt endurtaki sig ekki flutti fjármálaráðherra nýlega tvö frumvörp á Alþingi um að breyta skattheimtunni og gera hana líkari því sem tíðkast hjá öðrum þjóðum við Norður-Atlantshaf.

Efnahags- og skattanefnd Alþingis hefur nú fjallað um frumvörpin og mæla allir níu þingnefndarmenn með því einróma að frumvörpin verði samþykkt, einnig fulltrúi Vinstri grænna, en þar í flokki hafa opinberlega heyrst efasemdir um að olíuvinnsla á Norðurslóðum samrýmdist stefnu flokksins.

Útboðið á Drekasvæðinu hefst þann 1. ágúst næstkomandi og fá olíufélög frest til 1. febrúar 2012 til að senda inn tilboð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×