Viðskipti innlent

Exxon Mobil sýnir Drekaútboðinu áhuga

Kristján Már Unnarsson skrifar
Olíuborpallur
Olíuborpallur
 

Bandarísku olíurisarnir Exxon Mobil og Conoco Phillips, ásamt Statoil í Noregi og Total í Frakklandi, eru meðal þeirra átta olíufélaga sem sóttu kynningarfund um væntanlegt útboð Íslendinga á Drekasvæðinu, sem Orkustofnun stóð fyrir í Stafangri í Noregi í dag. Önnur félög sem sendu fulltrúa sína á fundinn eru Atlantic Petrolium í Færeyjum, Faroe Petrolium í Bretlandi, Sagex Petrolium í Noregi og Tullow Oil í Bretlandi.

Annað útboð Íslands í olíuleit og olíuvinnslu á Drekasvæðinu hefst þann 1. ágúst næstkomandi og hafa olíufélög frest til 1. febrúar 2012 til að senda inn tilboð. Áður var áformað að hafa frestinn til 1. desember 2011 en nýlega var ákveðið að lengja útboðstímabilið um tvo mánuði, þar sem hitt þótti í stysta lagi, að sögn Þórarins Sveins Arnarsonar, verkefnisstjóra olíuleitar hjá Orkustofnun.

Þórarinn segir að á fundinum í Stafangri í dag, sem um 35 manns sóttu, hafi meðal annars verið kynntar áformaðar breytingar á skattalöggjöf Íslands, sem eru í meðförum Alþingis, og segir Þórarinn að fulltrúum olíufélaganna hafi almennt litist vel á þær breytingar. Einnig kynnti franska olíuleitarfyrirtækið CGG Veritas hljóðbylgjurannsóknir sem þykja lofa góðu um Drekasvæðið.

Í fyrsta Drekaútboðinu fyrir tveimur árum sendu tvö norsk félög inn tilboð, Sagex Petrolium og Aker Exploration, en bæði hættu við. Meðal annars fékkst sú skýring á dræmri þátttöku að fyrirhuguð skattheimta Íslendinga af olíuvinnslu hefði fælt frá. Þótt fulltrúar átta olíufélaga hafi mætt á fundinn í dag segir Þórarinn að það segi ekkert um hvort þau muni taka þátt í útboðinu, og heldur ekkert um hvort önnur félög, sem ekki voru á fundinum, verði með, en fundurinn var einkum hugsaður fyrir félög sem hafa skrifstofur í Stafangri.

Áhugi Exxon Mobil, stærsta olíufélags Bandaríkjanna, vekur athygli í ljósi þess að það ákvað fyrir þremur mánuðum að taka þátt í olíuleit við Færeyjar. Í því skyni keypti Exxon Mobil helmingshlut í þremur leitarleyfum Statoil í færeyska landgrunninu og ætla olíufélögin í sameiningu, ásamt færeyska olíufélaginu Atlantic Petrolium, að bora fyrstu rannsóknarholuna þar síðar á þessu ári. Þessi þrjú félög áttu öll fulltrúa á Drekafundinum í Stafangri í dag.

Hinir olíurisarnir á fundinum í dag eru heldur ekki af smærri gerðinni. Total er stærsta olíufélag Frakklands og Conoco Phillips er þriðja stærsta olíufélag Bandaríkjanna.

Þessi félög mættu á kynningarfundinn:

Atlantic Oil, Færeyjum

Conoco Phillips, Bandaríkjunum

Exxon Mobil, Bandaríkjunum

Faroe Petrolium, Bretlandi

Sagex Petrolium, Noregi

Statoil, Noregi

Total, Frakklandi

Tullow Oil, Bretlandi






Fleiri fréttir

Sjá meira


×