Erlent

Fengu loks að koma með soninn heim

Laurent Ghilain með soninn við heimkomuna til Belgíu í dag.
Laurent Ghilain með soninn við heimkomuna til Belgíu í dag. Mynd/AFP
Samkynhneigðir feður rúmlega tveggja ára drengs sem getinn var með staðgöngumóður í Úkraínu gátu loks komið heim til  Belgíu með drenginn í dag, eftir rúmlega tveggja ára baráttu við skriffinsku í belgíska kerfinu.

Þeir Laurent Ghilain, sem er tuttugu og sjö ára og Peter Meurrens sem er þrjátíu og sjö ára,  voru kampakátir þegar þeir komu með son sinn til Brussel höfuðborgar Belgíu í dag. Ghilain er líffaðir barnsins en staðgöngumóðir í Úkraínu tók að sér að ganga með barnið þar sem staðgöngumæðrun er lögleg. Drengurinn er nú tveggjá ára og þriggja mánaða en hann fæddist í nóvember 2008.

Ættingjar feðranna og drengsins tóku á móti þeim á flugvellinum og sagði móðir Meurrens að biðin undanfarin rúmlega tvö ár hefði verið ömurleg. Stjórnsýslan í Brussel hefur tafið útgáfu vegabréfs fyrir barnið og þar með komu þess til heimalandsins. Það var ekki fyrr en dómstóll í Belgíu kvað upp úrskurð í vikunni feðrunum í hag, að utanríkisráðherra lét gefa út vegabréf fyrir drenginn.

Samkynhneigðir geta bæði gift sig og ættleitt börn í Belgíu en ófullkomin löggjöf er hins vegar í landinu um staðgöngumæðrun og rétt barna sem koma í heiminn með þeim hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×