Erlent

Gaddafi reynir að lægja öldurnar með því að lofa launahækkunum

Stjórnvöld í Líbýu lofa nú almenningi peningagreiðslum og launahækkunum í von um að róa uppreisnaröldu sem gengur yfir landið. Uppreisnin er runnin undan rifjum al Kaída segir Gaddafi einræðisherra.

Ríkissjónvarpið í Líbýu tilkynnti að opinberir starfsmenn í ákveðnum geirum fái allt að 150 prósenta launahækkun. Þá eiga allar fjölskyldur von á 50 þúsund króna greiðslu auk þess sem lækka á verð á matvælum og öðrum nauðsynjavörum.Þetta er ein af fjölmörgum heldur örvæntingarfullum tilraunum stjórnvalda til að róa almenning sem hefur í flestum borgum landsins risið upp og tekið völdin í eigin hendur.

Borgir á borð við Tobruk og Bengazi eru nú á valdi fólksins en þar hafa hópar og nefndir verið skipaðar til að sjá um öryggismál, heilbrigðismál og annað í þeim dúr. Það er helst í höfuðborginni Tripoli og í nágrenni hennar sem Gaddafi hefur tekist að berja niður uppreisnaröflin.

Það hefur verið gert með harðri hendi. Til að mynda í borginni Az Zawiyah, 150 kílómetrum frá Trípóli, en í gær komu hersveitir hliðhollar Gaddafi inn í borgina og stráfelldu mótmælendur. Vitni sem töluðu við fréttastöðina Al Jazeera í gær sögðu að 100 manns hefðu fallið, allt mótmælendur sem höfðu komið saman á torgi í borginni.

Mótmælendur eru hins vegar ekki af baki dottnir og hafa skipulagt fjöldamótmæli í dag, sem eiga vera þau fjölmennustu hingað til.

Stjórnvöld brugðust við með því að senda fjölda smáskilaboða  þar sem fólk er hvatt til að halda sig heima við.En þau létu ekki þar við sitja og lofuðu þeim sem áframsenda skilboðin inneign á símkortið sitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×