Erlent

Reynt að draga úr hundahaldi í Shanghai

Borgaryfirvöld í kínversku borginni Shanghai hafa tilkynnt borgarbúum um nýja stefnu sem byggir þekktri stefnu stjórnvalda í landinu um aðeins eitt barn fyrir hver hjón.

Frá maí í ár verður borgarbúum í Shanghai bannað að eiga meira en einn hund hver.  Samhliða því verða um 600.000 óskráðir hundar í borginni gerðir ólöglegir. Þetta mál hefur verið lengi til umræðu og valdið miklum deilum innan borgarstjórnar Shanghai.

Fjöldi hunda er mikið vandamál í Shanghai. Á síðasta ári tilkynntu fleiri en 140.000 borgarbúar til lögreglunnar að þeir hefðu verið bitnir af óskráðum hundum og það eru um fjórfalt fleiri óskráðir hundar en skráðir í Shanghai. Nýju reglurnar þýða m.a. að eigendur óskráðra hunda verða að gefa þá frá sér.

Í frétt um málið á BBC segir að þar sem Shanghai sé í Kína verði íbúarnir fljótir að finna leiðir í kringum þessa nýju löggjöf. Bent er á að þegar hjónum var bannað að eiga meira en eina íbúð, vegna fasteignabólu í landinu, jókst fjöldi skilnaða verulega. Hjónin sem skildu bjuggu saman áfram en gátu þá átt sitthvora íbúðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×